
Þann 3 september 2021 byrjuðum við með annað hlaðvarp sem heitir Sannar Íslenskar Draugasögur. Þessi hugmynd varð til vegna þess að við vorum að fá sendar sögur frá ykkur daglega, þar sem þið voruð að deila ykkar reynslu af draugagangi og biðja okkur um álit eða ráð.
Okkur fannst mikilvægt að nota okkar platform til þess að deila þessum sögum með þjóðinni og vekja þannig athygli á þessu málefni. Draugar íslands eru ekki eingöngu inní gömlum eyðibýlum. Draugasögur Íslands eru að gerast inná venjulegum íslenskum heimilum.
Svo við gáfum okkur tíma á milli áskriftarþátta til þess að lesa sögurnar ykkar, skrifa niður okkar túlkun og okkar ráð. Næst var þátturinn tekin upp, klipptur, tónsettur og hann gefin út. Við gerðum okkur held ég ekki alveg grein fyrir því hversu vinsælt þetta hlaðvarp myndi verða. Þetta átti að vera verkefni sem við gerðum í frítímanum okkar, en áður en við vissum af vorum við komin með mörg þúsund tölvupósta. Mörg þúsund manns settust niður og skrifuðu sína draugasögu, sína upplifun, og margir voru jafnvel þarna í fyrsta skipti tilbúnir að horfast í augu við þá staðreynd að það hafi upplifað eitthvað yfirnáttúrulegt sem það kunni ekki skýringu á. Það getur verið mjög erfitt en það er auðveldara þegar maður veit að maður er ekki einn.
Eftir nokkra þætti fórum við að fá skilaboð frá fólki þar sem það þakkaði okkur fyrir að tala um þetta málefni opinberlega og á hversdagslegum nótum. Fólki leið betur eftir að við tókum sögurnar þeirra fyrir, það var augljóst að margir voru búnir að burðast með sína reynslu á bakinu aleitt í mörg ár jafnvel áratugi og þar til nú höfðu þau engan til þess að tala við. Aðrir báðu okkur um ráð hvort sem það var á samfélagsmiðlum, í síma eða jafnvel í persónu og það veitir okkur ólýsanlega gleði að getað hjálpað því allir eiga að hafa sína rödd, öllum á að vera trúað, og engin á að vera hræddur eða dæmdur.

Þegar við byrjuðum með hlaðvarpið okkar Draugasögur árið 2020 vissum við ekki hversu vinsælt það myndi verða, þó að við vonuðum það. Eftir nokkrar vikur tókum við þá ákvörðun að hætta í vinnunum okkar til þess að getað einbeitt okkur að hlaðvarpinu 100%. Það var rosalegt stökk útí djúpu laugina fyrir fjögurra barna foreldra að segja starfi sínu lausu og stofna fyrirtæki – en við erum bæði miklir frumkvöðlar svo þetta kom kannski engum á óvart. Við elskum að vinna mikið og vinna lengi. Það fyrsta sem við tölum um á morgnanna eru draugasögur vikunnar, í göngutúrum ræðum við um draugasögurnar ykkar sem við höfum fengið sendar, metum aðstæður og næstu skref, og það síðasta sem við tölum um fyrir svefninn eru nýjar hugmyndir. Þannig rúllum við alla daga og við elskum það!
Við höfum frá byrjun alltaf lagt mikið uppúr því að hafa þættina okkar eins. Þeir koma alltaf út á sama tíma, við eyðum engum tíma í óþarfa spjall og komum okkur alltaf beint að efninu. En við vissum að Sannar Íslenskar Draugasögur gætu aldrei orðið þannig, vegna þess að við gátum bara gert þá þegar við höfðum frítíma (sem er ekki oft með stórt heimili). En okkur langar ekki að hætta með þá. Svo eftir að hafa ráðfært okkur við vini, dygga áskrifendur og aðra hlustendur þá höfum við tekið þá ákvörðun að byrja með þættina aftur reglulega, en það mun verða breyting á.

Sannar Íslenskar Draugasögur munu hefja göngu sína aftur í Janúar og nýr þáttur mun koma út annan hvern föstudag kl. 03:00. En til þess að geta gert þetta svona þá ætlum við að setja þættina inní áskrift. Þetta verður sér áskriftarleið inná patreon sem býður eingöngu uppá Sannar Íslenskar Draugasögur og áskriftin mun kosta 9 dollara (patreon gefur upp verð í dollurum).
Með þessu erum við í rauninni að byrja Sannar Íslenskar Draugasögur uppá nýtt. Allar þær sögur sem við höfum fengið sendar og gefið út munum við birta inná nýrri heimasíðu sem við erum að vinna í. Þar verður samansafn af sögum sem að fólk getur lesið.
Þær sögur sem við höfum fengið sendar hingað til verða EKKI teknar fyrir inná áskriftinni – vegna þess að okkur finnst að fólk eiga rétt á að segja hvort það vilji að sín saga birtist í lokaðri dagskrá eða ekki.
En ef þú hefur nú þegar sent okkur sögu en hún ekki enn verið birt, þá hvetjum við þig til þess að senda hana aftur (þ.e.a.s. ef þú vilt að hún komi fram í þáttunum inn á Patreon) á netfangið: sannar@draugasogur.com
Við viljum einnig nota tækifærið og minnast á að 0% tekna hlaðvarpsins koma í gegnum auglýsingar, við erum ekki og höfum ekki verið þannig hlaðvarp.

Við getum ekki bara ýtt á upptöku, lesið upp sögur og gefið þær svo beint út. Okkar hlaðvörp hafa aldrei verið þannig og munu aldrei verða það. Við leggjum mikinn tíma með áherslu á gæði fyrir fyrsta flokks upplifun.
Seinasti þátturinn af Sönnum Íslenskum Draugasögum í opinni dagskrá kemur út 30 desember og verður það 24 þátturinn sem við gefum út frítt á öllum hlaðvarpsveitum.
Við munum opna fyrir nýju áskriftarleiðina fimmtudaginn 12 janúar og þann 13 janúar aðfaranótt föstudags mun fyrsti þátturinn koma út kl. 03:00. Við vonum að þið takið vel í þessar breytingar afþví að við erum ótrúlega spennt fyrir því að geta gefið okkur mun meiri tíma í að segja Draugasögurnar YKKAR!



Ef þú vilt að þín saga birtist í Sönnum Íslenskum Draugasögum getur þú sent okkur hana á sannar@draugasogur.com
Í kjölfarið fær þú staðfestingarpóst 🙂

sannar@draugasogur.com
Allir sem senda inn sina draugasögu fá að eiga hana á hljóðformi og fá sína eigin myndakápu (eða cover á ensku). Sem þýðir að ef að þú sendir okkur þína draugasögu, eitthvað sem þú hefur upplifað og við ákveðum að taka hana fyrir í hlaðvarpinu okkar þá færð þú að eiga hana!
Um leið og þátturinn er gefin út á patreon þá færð þú söguna þína senda í tölvupósti. Þinn eigin hljóð file og cover mynd sem var búin til fyrir þig. Þetta er þín saga, við setjum hana bara í flottan búning fyrir þig, sem þú getur átt um ókomna tíð og deilt með öðrum☺️

Sannar Íslenskar Draugasögur eru áskriftarþættir, svo með því að senda okkur sögu þá gefur þú okkur leyfi til þess að nota hana í þáttum okkar sem eru eingöngu aðgengilegir áskrifendum. En þú þarft hinsvegar ekki að vera áskrifandi frekar en þú vilt. Allir sem senda okkur sögur sem við ákveðum að nota fá sína sögu senda hvort sem viðkomandi er í áskrift eða ekki.
Þetta á eingöngu við um sögur sem við ákveðum að taka fyrir í þáttum okkar. Aldurstakmark er 18 ára 🤍
Þú kemur þinni upplifun á blað og við látum hana lifna við 🤍